
Upplýsingar um aðila með vottun lífrænnar framleiðslu og náttúrulegra aðfanga
Hér að ofan er að finna skrá um þá sem höfðu vottun í árslok 2024 til framleiðslu og viðskipta með lífræna framleiðslu, svo og fyrirtæki sem voru vottuð til framleiðslu náttúrulegra aðfanga.
Lista yfir þá sem hlutu vottun samkvæmt reglugerð ESB um lífræna framleiðslu er að finna í gagnagrunni ESB, Traces NT. Þar má sjá sömuleiðis umfang vottunar hvers og eins, þ.e. vörutegundir og starfsemisflokk. Starfsemisflokkar (activities) eru eftirfarandi: framleiðsla (öll frumframleiðsla, þ.e. landbúnaður, fiskeldi og söfnun land- og lagarjurta) (production); vinnsla (öll umbreyting, pökkun og merking vöru) (processing); geymsla (storage); dreifing & markaðssetning (distribution & marketing); innflutningur frá löndum utan ESB/EES (imports); og útflutningur til landa utan ESB/EES (export). Vöruflokkar eru sjö talsins: (a) óunnar plöntur og plöntuafurðir; (b) búfé og óunnar búfjárafurðir; (c) þörungar og óunnar lagareldisvörur; (d) unnar landbúnaðar- og lagareldisvörur til manneldis; (e) fóður; (f) vín; (g) aðrar vörur (t.d. sjávarsalt, ilmkjarnaolíur o.fl.).
Tún vottar einnig lífræna framleiðslu sem er utan ramma reglugerða ESB. Þau kerfi styðjast að mestu við kröfur lífrænnar vottunar samkvæmt reglugerðum, en þó með sínum sérákvæðum. Þannig eru nokkur íslensk fyrirtæki með vottun á framleiðslu lífrænna snyrtivara. Þá eru nokkur fyrirtæki með vottun á framleiðslu náttúrulegra aðfanga, þ.e. fiskimjöls sem hagnýtt er til framleiðslu á lífrænu fiskeldisfóðri og áburði, fæðubótarefna og kítíns úr vottaðri rækjuskel.
Tún vottar aðila í Færeyjum, sem sinna lífrænni framleiðslu og vinnslu matvæla. Er þar stuðst að öllu leyti við reglugerðir ESB, en vegna stöðu Færeyja er þeim ekki heimilt að nota Evrópulaufið sem er vottunarmerki ESB. Vottunarhafar fá hinsvegar heimild til að nota vottunarmerki Túns um lífræna framleiðslu.
Finna vottaða aðila
Öll vottunarskírteini skulu gefin út í miðlægu kerfi ESB sem kallast TRACES NT frá og með júní 2023. Þetta nýja fyrirkomulag auðveldar utanumhald fyrir eftirlitsaðila og þátttakendur í lífrænni vottun.
Fyrir framleiðendur, vinnsluaðila og innflytjendur bendum við á leiðbeiningavef fyrir innskráningu og skráningu nýrra aðila í kerfið hér til hliðar.