Vottunarskrá fyrir lífrænar og náttúruafurðir

Hér að ofan er að finna vottunarskrá eins og staðan var í lok árs 2023

Í upphafi árs 2023 tóku gildi nýjar reglugerðir Evrópusambandsins hér á landi um lífræna vottun matvæla og fóðurs. Mikil vinna hefur verið unnin af hendi við nauðsynlegar uppfærslur kerfa hér sem víðar í álfunni. Vegna uppfærðrar flokkunar þótti nauðsynlegt að taka mið af því við upplýsingagjöf um vottun innan landsteinanna. Flokkunin er í samræmi við skilgreiningar sem koma fram á þeim vottorðum sem gefin eru út á kerfi ESB, Traces NT, sem heldur utan um matvælaskjöl innan evrópska markaðarins. Flokkarnir eru: Framleiðsla (öll frumframleiðsla), vinnsla (öll umbreyting, pökkun og merking), geymsla, dreifing / markaðssetning, innflutningur frá þriðju ríkjum og lokst útflutningur til þriðju ríkja.

Í lok árs 2023 voru 56 lögaðilar á Íslandi með vottun vegna lífrænna matvæla og fóðurs skv. reglugerðum Evrópusambandsins. Tölur milli ára gefa til kynna fækkun en vegna breytingar á flokkun og vottorðaskráningu sameinuðust skráningar þeirra sem áður voru tvítaldir vegna frumframleiðslu og vinnslu, sem áður fengu aðskilin vottunarskírteini. Dreifing flokkunar var eftirfarandi:

  • Frumframleiðsla - 28

  • Vinnsla - 22

  • Dreifing / markaðssetning - 34

  • Geymsla - 34

  • Innflutningur - 34

  • Útflutningur - 1

Ítarlegri upptalningu er að finna í vottunarskrá sem fæst í gegnum hnappinn að ofan.

Önnur kerfi sem Tún heldur úti er lífræn vottun fyrir lífrænar afurðir utan reglugerða, svo sem snyrtivörur, auk vottaðra náttúruafurða líkt og fiskimjöl og æðardúnn. Þau kerfi styðjast að mestu við kröfur lífrænnar vottunar samkvæmt reglugerðum þó með sínum sérákvæðum. Einnig vottar Tún aðila í Færeyjum sem sinna lífrænni framleiðslu eða vinnslu matvæla og er þar stuðst að öllu leyti við reglugerðir ESB en vegna stöðu Færeyja er þeim ekki heimilt að nota Evrópulaufið sem er vottunarmerki ESB, en fá þá vottunarmerki Túns um lífræna framleiðslu. Dreifing vottunar:

  • Náttúruafurðir - 7

  • Lífrænt utan reglugerða - 3+

  • Lífrænt í Færeyjum - 2

Alls eru því 68 aðilar sem hlutu vottun á sviði lífrænnar vottunar og náttúruafurða. 5 aðilar bættust í hópinn, allir með lífræna vottun ESB, en alls sögðu 11 sig úr vottun, 1 úr lífrænni vottun utan reglugerða með matreiðslu, 1 með vottaðar náttúruafurðir og 9 með lífræna vottun ESB.