Vakinn - gæða- og umhverfisvottunarkerfi íslenskrar ferðaþjónustu

Vakinn Logo

Vakinn er gæða- og umhverfisvottunarkerfi íslenskrar ferðaþjónustu. Vottunarkerfið er byggt á erlendum fyrirmyndum en staðfært að íslenskum aðstæðum og hentar fyrir allar gerðir ferðaþjónustu, allt frá söfnum og hótelum til afþreyingar- og jaðarferðamennsku.

Kerfið tekur á ábyrgum rekstri, samfélagslegri ábyrgð, þjónustugæðum og hæfi starfsfólks, öryggis og umhverfis. Þrír umhverfisvottunarflokkar eru í boði fyrir þá sem hljóta vottun: brons, silfur og gull, þar sem brons er lágmarkskrafa til þátttöku í Vakanum en hægt er að vinna sig upp í silfur og gull með aukinni samfélags- og umhverfisábyrgð.

Hugmyndin að baki Vakanum er að gefa íslenskri ferðaþjónustu verkfæri til að auka gæði og vonandi til framtíðar bæta ímynd og upplifun hennar í heild. Allar kröfur, hjálpargögn og leiðbeiningar eru aðgengilegar á heimasíðu Vakans og geta því allir nýtt sér kerfið óháð því hvort þeir séu tilbúnir til að fara í gegnum vottun eða ekki. Fyrirtæki sem ná að afla sér og viðhalda vottun Vakans hafa staðist ítarlega úttekt sem krefst bæði metnaðar og staðfestu í rekstri.

Ekki hika við að hafa samband við okkur fyrir frekari upplýsingar.

Einnig hvetjum við ykkur til að kynnast umhverfismerkinu á vakinn.is, en þar er að finna mikið magn upplýsinga um kerfið.

Fyrir hverja er Vakinn?

Þar sem Vakinn tekur á flestum þáttum rekstrar og þjónustu ferðaþjónustufyrirtækja er hann ákjósanlegt forsnið að gæðakerfi og hentar langflestum sem vilja auka gæði og öryggi. Hvort sem um er að ræða lítið fyrirtæki sem er að hefja rekstur eða stóran aðila á markaðinum eru þættir Vakans þannig úr garði gerðir að þeir kalla eftir sífelldri framþróun og endurskoðunar.

Hver er hagurinn

Öll gæðastjórnun sem sinnt er af alvöru hefur eitthvert rekstrarhagræði í för með sér. Þeir sem uppfylla kröfur Vakans þurfa að taka á þjálfun og hæfi framlínufólks sem hefur það í för með sér að meiri vitund er um hlutverk þeirra og rétt verklag sem skilar af sér aukinni hagkvæmni. Krafa um endurskoðun öryggisáætlana leiðir af sér aukið öryggi sem má finna hag í út frá lægri rekstrarkostnaði vegna óhappa og betri umsögnum viðskiptavina. Sama á við um þjónustugæði þar sem hæft framlínustarfsfólk getur gert gæfumuninn í upplifun viðskiptavina. Hjá þeim sem sækjast eftir silfur og gull vottun bætist við mæling auðlindanotkunar, eða grænt bókhald. Með góða upplausn á mælingum má með tíð og tíma greina sveiflur og afbrigði sem hægt er að koma i veg fyrir síðar. Þá er eingöngu hægt að setja sér markmið um að minnka notkun þegar hún er mæld, og framkvæmdir til úrbóta eru loksins orðnar mælanlegar.

Hvað kostar að taka þátt?

Vegna þess hversu fjölbreyttir umsækjendur eru í Vakanum væri villandi að gefa upp einfalda verðskrá.

Nokkrir þættir hafa áhrif á verðið, t.d. fjöldi starfsmanna og verktaka, fjöldi starfsstöðva, fjöldi gæðaviðmiða sem ná yfir reksturinn, hvort einnig sé sótt um silfur eða gull svo eitthvað sé nefnt.

Ferðakostnaður er ekki innifalinn í tilboðum þar sem við leitumst eftir því að halda honum í algjöru lágmarki sem næst kostnaðarverði fyrir úttektina sjálfa. Því náum við með því að safna saman úttektum á hverju svæði fyrir sig og deila kostnaðinum á milli viðskiptavina. Þannig reynum við að koma til móts við þátttakendur í vottunarkerfum sem við þjónustum sem eru staðsettir úti á landsbyggðinni.

Til að fá tilboð í úttektar og vottunarþjónustu er smellt á græna hnappinn efst til hægri á síðunni eða sendur tölvupóstur á tourism@tun.is.

Vottunarferlið

Umsóknarferli

  1. Umsækjandi skilar inn umsókn til Ferðamálastofu til að vera skráður þátttakandi í Vakanum (sjá tengil neðar á síðunni)

  2. Umsækjandi smellir á græna hnappinn efst í hægra horni síðunnar eða hefur samband við okkur hjá Túni í gegnum tourism@tun.is

  3. Tún sendir umsóknargögn til umsækjanda og fær samning með tilboði til undirritunar.

  4. Umsækjandi sendir inn vel útfyllt umsóknargögn til Túns. Hægt er að sækja um 1. apríl eða 1. október. Umsóknir þess á milli eru geymdar fram að næstu umsóknarlotu.

Úttektarferli

  1. Umsækjandi fyllir út sjálfsmatsgögn Vegna á þjónustugátt Túns.

  2. Matsmaður Túns fer yfir gögnin út frá kröfum Vakans.

  3. Matsmaður Túns og tengiliður umsækjanda ákveða tímasetningu vettvangsúttektar (í apríl eða október).

  4. Umsækjandi fær vettvangsúttekt frá matsmanni Túns.

Ákvörðun / Vottun

  1. Umsóknin og matsskýrsla er lögð fyrir vottunarnefnd Vakans hjá Túni til ákvörðunar.

  2. Ef umsókn er samþykkt fær umsækjandi vottorð og rafrænt vottunarmerki Vakans.

Framhaldið

Vottun Vakans gildir í þrjú ár með viðhaldsúttektum á öðru og þriðja ári sem eru jafnan minni í sniðum en frumúttektin og mögulega aðeins skjalaúttektir, en fyrir fjórða árið þarf að klára endurvottunarúttekt sem er sambærileg fyrsta árs úttektinni og byrjar þriggja ára fasinn þá aftur. Tilboðin taka tillit til mismunandi umfangs úttektanna í þriggja ára fasanum og er frumúttektin dýrust en næstu tvö ár ódýrari.

Kröfur og skjöl Vakans