Blue Flag á Íslandi

Blue Flag logo

Blue Flag eða Bláfáninn eins og hann er einnig þekktur sem hér á landi, er alþjóðlega viðurkennt umhverfisvottunarkerfi fyrir strandferðaþjónustu. Árið 2022 fengu rúmlega 4000 staðir vottunina í fleiri en 60 löndum um heim allan.

Til að fá Bláfánann verða umsækjendur að uppfylla strangar umhverfiskröfur og viðmið sem taka bæði til starfseminnar sem slíkrar, öryggis notenda, fræðslu og samskipta og tekur þannig til ábyrgðar fyrirtækisins gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Bláfáninn leggur áherslu á að minnka umhverfisáhrif rekstrar, draga úr rekstrarkostnaði og stuðla að sjálfbærni innan ferðaþjónustunnar.

Blue Flag er veittur til ferðaþjónustubáta, baðstranda og smábátahafna. Einnig geta einstaklingar hlotið Bláfánaveifuna sem felst í undirritaðri yfirlýsingu um að fylgja siðareglum Blue Flag.

Ekki hika við að hafa samband við okkur fyrir frekari upplýsingar.

Einnig hvetjum við ykkur til að kynnast umhverfismerkinu á blueflag.global, en þar er að finna mikið magn upplýsinga um kerfið.

Fyrir hverja er Blue Flag

Umsókn um Blue Flag er ekki afgreidd með því að haka í box. Umsækjendur sem leggja metnað sinn í sjálfbærni eiga erindi í Blue Flag og setur kerfið kröfur um ítarlegt virka þátttöku þeirra í vitundarvakningu á umhverfis- og samfélagsmálum, samræmi við lög og reglugerðir um vernd umhverfisins, heilnæmi vatns, virðingar við dýraríkið og sífelldra framfara í átt að sjálfbærni.

Blue Flag er fyrir þá umsækjendur sem sjá hag sinn í því að auglýsa þá góðu vinnu sem unnin er oftar en ekki þar sem gestir sjá ekki til en hefur þau áhrif að umhverfisspor þeirra eru smærri en hjá öðrum rekstraraðilum.

Blue Flag er því fyrir þá umsækjendur sem standa sig vel áður en sótt er um þátttöku og hafa vilja til að gera enn betur.

Hver er hagurinn

Öll gæðastjórnun sem sinnt er af alvöru hefur eitthvert rekstrarhagræði í för með sér. Þess til viðbótar hafa samfélagsverkefni, fræðsla og bætt ímynd í för með sér aukið samfélagsleyfi (e. social license to operate) en Blue Flag gerir einmitt kröfur um að sá þáttur rekstursins sem gefur af sér til samfélagsins sé vel sýnilegur.

Blue Flag er merki sem þekkist víða um heim og er þekkt af áreiðanleika þeirra sem það eiga og reka. Þátttakendur í kerfinu njóta því ekki einungis innri hagræðingar og bættra umhverfis- og samfélagsgæða heldur einnig markaðsgildis Blue Flag hjá sínum viðskiptavinum.

Hvað kostar að taka þátt?

Tún býður upp á Blue Flag fyrir fast gjald ár hvert og er gjaldskráin er uppfærð í ágúst.

Árgjaldið fyrir tímabilið 2024-2025 eru 262.500 kr.

Sé sótt um fleiri en eina smábátahöfn eða strönd má hafa samband til að kanna hugsanleg afsláttarkjör á grunngjaldinu. Virðisaukaskattur bætist við öll verð.

Ofan á árgjald bætist að lágmarki kostnaður vegna lágmarksfjölda fána hvers umsækjanda (sjá að neðan skilgreint af Blue Flag International). Umsækjendur geta óskað eftir fleiri fánum. Óheimilt er að flagga trosnuðum fána og er mælt með því að skipta um fána minnst tvisvar til þrisvar á ári vegna íslenskra aðstæðna.

150×225 cm: 4.500 kr
100×150 cm: 3.000 kr
60×90 cm: 1.500 kr (aðeins fyrir ferðaþjónustubáta)
30×45 cm: 1.000 kr (aðeins fyrir ferðaþjónustubáta)
Vottunarskjöldur (aðeins fyrsta skipti fyrir ferðaþjónustubáta): 4.000 kr

Lágmark er einn af stærri fánunum fyrir strendur og smábátahafnir. Einn fáni af viðeigandi stærð þarf á hvern ferðaþjónustubát. Við mælum með 60×90 cm á flesta báta en 30×45 cm á smærri báta. Vottunarskjöldur þarf að vera uppi í móttöku eða afgreiðslu ferðaþjónustubátanna.

Vottunarferlið

Umsóknarferli

  1. Þann 30. nóvember ár hvert er opnað fyrir umsóknir og er síðasti dagur til að skila umsókn 7. janúar. Umsækjandi smellir á græna hnappinn efst í hægra horni síðunnar eða hefur samband við okkur hjá Túni í gegnum tourism@tun.is

  2. Tún sendir umsóknargögn til umsækjanda.

  3. Umsækjandi sendir inn vel útfyllt umsóknargögn til Túns og greiðir umsóknargjald Blue Flag til Túns.

Úttektarferli

  1. Matsmaður Túns fer yfir umsóknargögn út frá kröfum Blue Flag.

  2. Matsmaður Túns og tengiliður umsækjanda ræða niðurstöður úttektar ef einhver frávik eru til staðar.

  3. Umsókn er send til vottunarnefndar.

Ákvörðun / Vottun

  1. Umsóknin og matsskýrsla er lögð fyrir vottunarnefnd Blue Flag á Íslandi til ákvörðunar.

  2. Niðurstaða innlendrar vottunarnefndar er send til alþjóðlegrar vottunarnefndar Blue Flag sem tekur lokaákvörðun.

  3. Ef umsókn er samþykkt fær umsækjandi vottorð og fána afhent eftir samkomulagi.

Framhaldið

Vottun Blue Flag ber með sér ákveðið fánatímabil eftir því hvernig starfsemi umsækjanda er háttað. Þeir sem geta uppfyllt kröfur Blue Flag í 12 mánuði ársins gera haft heilsárs vottun en aðrir sem til að mynda eru aðeins í rekstri yfir hlýjustu mánuðina fá styttra fánatímabil skilgreint. Sækja þarf um Blue Flag vottun árlega og greiða bæði árgjald og fánakostnað.

Einhvern tíman á fánatímabilinu mætir matsmaður í gæðaheimsókn og tekur út aðstæður. Þessar heimsóknir geta verið tilkynntar eða ótilkynntar og hefur matsmaður einnig heimild til að mæta í hulduheimsókn þar sem hún er ekki tilkynnt fyrr en að heimsókn lokinni. Niðurstöður heimsóknarinnar geta haft áhrif á vottunarstöðu og möguleika á vottun við næstu umsókn

Kröfur og stefnur Blue Flag

Bláfánaveifa fyrir skemmtibátaeigendur

Eigendur skemmtibáta sem treysta sér til að standa vörð um siðareglur Bláfánans og standa við þær sjálfir geta óskað eftir að taka þátt. Þeir skrifa undir siðareglurnar og fá senda Bláfánaveifu (þríhyrndan fána sem er einkennandi fyrir verkefnið).

Með þátttöku gefa eigendur bátanna skýr merki um eigin afstöðu til umhverfisverndar hafs og strandsvæða og eru samferðarfólki sínu gott fordæmi. Áhrif góðra fordæma á umhverfisvernd eru ótrúleg og gildir þar eins og víðar; því fleiri sem taka þátt því meiri eru áhrifin. Íslendingar hafa ítrekað sýnt það og sannað með átökum gegn utanvegaakstur, losun sorps á víðavangi og fleiri sviðum.

Að standa við siðareglurnar er algerlega á ábyrgð handhafa fánans og ólíkt formlegri vottun Bláfánans fyrir smábátahafnir, ferðaþjónustubáta og baðstrendur er ekkert eftirlit með Bláfána fyrir eigendur skemmtibáta.

Siðareglurnar eru:

  • Ég mun ekki henda rusli í hafið eða meðfram ströndum.

  • Ég mun ekki losa skólp nálægt ströndum eða á viðkvæmum svæðum.

  • Ég mun ekki losa hættulegan úrgang (olíu, málningu, notaðar rafhlöður, hreinsiefni o.s.frv.) í hafið.

  • Ég mun koma þeim úrgangi í viðeigandi gáma eða ílát við höfnina.

  • Ég mun tala fyrir og nýta aðstöðu til endurvinnslu (gler, pappi, plast o.s.frv.).

  • Ég mun nota umhverfisvænstu vörur í boði og nýta þær vel.

  • Ég mun tilkynna mengun og önnur brot á reglum varðandi umhverfið til yfirvalda.

  • Ég mun ekki taka þátt í óleyfilegum veiðiaðferðum og mun virða takmarkanir á veiði.

  • Ég mun vernda dýr og gróður í hafinu, meðal annars með því að trufla ekki fugla á varptíma, seli eða önnur sjávarspendýr.

  • Ég mun virða viðkvæm og vernduð svæði.

  • Ég mun forðast að skaða sjávarbotninn (t.d. með því hvernig ég legg akkeri).

  • Ég mun forðast að trufla fiskeldis- og fiskveiðibúnað.

  • Ég mun ekki kaupa eða nota hluti búna til úr vernduðum tegundum eða fornmunum af sjávarbotni.

  • Ég mun hvetja annað bátafólk til að sinna umhverfinu vel.

Skráningargjald eru einungis 3.000 krónur. Markmið verkefnisins er að breiða út boðskap umhverfisverndar og hafa áhrif á nærsamfélagið til hins betra. Þessi upphæð nægir fyrir fánanum sjálfum, skráningu og umsýslu auk sendingarkostnaðar. Trosnaða og ónýta fána þarf að skipta um og er endurnýjun á helmingsafslætti. Ekki er leyfilegt að flagga ónýtum veifum.

Hvernig sæki ég um?

Sendið erindið á tourism@tun.is og óskið er eftir eyðublaði til undirritunar.

Geta allir tekið þátt?

Þetta verkefni Bláfánans er eingöngu fyrir eigendur skemmtibáta sem ekki nýta bátana í rekstri (e. commercial use).