Green Key á Íslandi
Green Key eða Græni Lykillinn eins og hann er einnig þekktur sem hér á landi, er alþjóðlega viðurkennt umhverfisvottunarkerfi fyrir ferðaþjónustuna og státar af því að vera útbreiddasta alþjóðlega umhverfisviðurkenningin sem snýr að hótelum og gististöðum. Árið 2021 fengu rúmlega 3200 staðir viðurkenninguna í 65 löndum um heim allan.
Til að fá Græna lykilinn verða hótel að uppfylla strangar umhverfiskröfur og viðmið sem taka bæði til starfseminnar sem slíkrar, fræðslu og samskipta og tekur þannig til ábyrgðar fyrirtækisins gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Græni lykillinn leggur áherslu á að minnka umhverfisáhrif rekstrar, draga úr rekstrarkostnaði og stuðla að sjálfbærni innan ferðaþjónustunnar.
Græni lykillinn er veittur til hótela og gististaða, ráðstefnusala, veitingastaða, safna, tjaldsvæða og skemmtigarða.
Ekki hika við að hafa samband við okkur fyrir frekari upplýsingar.
Einnig hvetjum við ykkur til að kynnast umhverfismerkinu á GreenKey.global, en þar er að finna mikið magn upplýsinga um kerfið.his.
Fyrir hverja er Green Key?
Umsókn um Green Key er ekki afgreidd með því að haka í box. Hótel sem leggja metnað sinn í sjálfbærni eiga erindi í Green Key og setur kerfið kröfur um ítarlegt umhverfisstjórnunarkerfi þar sem allar helstu auðlindir, til að mynda rafmagn, eldsneyti og bæði heitt og kalt vatn, eru mældar reglulega. Þá þurfa umsækjendur að sinna upplýsingahlutverki sínu af kostgæfni hvort tveggja gagnvart starfsmönnum og gestum en einnig leggja upp úr því að hafa jákvæð áhrif meðal birgja og samstarfsaðila.
Green Key er fyrir þau hótel sem sjá hag sinn í því að auglýsa þá góðu vinnu sem unnin er oftar en ekki þar sem gestir sjá ekki til en hefur þau áhrif að umhverfisspor þeirra eru smærri en hjá öðrum hótelum.
Green Key er því fyrir þau hótel sem standa sig vel áður en sótt er um þátttöku.
Hver er hagurinn
Öll gæðastjórnun sem sinnt er af alvöru hefur eitthvert rekstrarhagræði í för með sér sem uppfylla kröfur Green Key taka á mælingum auðlindanotkunar. Með góða upplausn á mælingum má með tíð og tíma greina sveiflur og afbrigði sem hægt er að koma i veg fyrir síðar. Þá er eingöngu hægt að setja sér markmið um að minnka notkun þegar hún er mæld, og framkvæmdir til úrbóta eru loksins orðnar mælanlegar.
Það er þó ekki einungis hagur af betri stjórnun á auðlindanotkun sem fæst með því að uppfylla kröfur Green Key. Samfélagsverkefni, fræðsla og bætt ímynd hefur í för með sér aukið samfélagsleyfi (e. social license to operate) þar sem kröfur eru um að sá þáttur rekstursins sem gefur af sér til samfélagsins sé vel sýnilegur.
Með ígrundaðri stefnumörkun, framkvæmd og eftirfylgni umhverfis- og gæðakerfa verður hægara að gera sjálfbærniskýrslur (einnig kallaðar UFS eða ESG skýrslur) sem fara fljótlega að verða ámóta sjálfsagðar og ársskýrslur, og ábyrgir fjárfestar eru þegar farnir að kalla eftir.
Hvað kostar að taka þátt?
Tún býður upp á Green Key fyrir hótel og gistiheimili (e. hostel) með fleiri en 15 herbergi ásamt afþreyingu svo sem söfn og gestastofur, en mun fjölga flokkum eftir því sem áhugi er fyrir í íslenskri ferðaþjónustu.
Hótel
Innheimt er árgjald (e. levy) sem reiknast út frá grunngjaldi að viðbættu gjaldi á hvert herbergi. Á fyrsta ári bætist við stofngjald sem greiðist aðeins einu sinni. Þau ár sem vettvangsúttektir eru framkvæmdar er greitt úttektargjald til viðbótar við árgjald.
Stofngjald: 50.000 kr.
Árgjald
Grunngjald: 150.000 kr.
Gjald á herbergi: 850 kr.
Úttektargjald: 80.000 kr.
Afþreying (e. Attraction)
Innheimt er árgjald (e. levy) sem byggir á grunngjaldi. Á fyrsta ári bætist við stofngjald sem greiðist aðeins einu sinni. Þau ár sem vettvangsúttektir eru framkvæmdar er greitt úttektargjald til viðbótar við árgjald.
Stofngjald: 50.000 kr.
Árgjald
Grunngjald: 185.000 kr.
Úttektargjald: 80.000 kr.
Virðisaukaskattur bætist við öll verð.
Að auki er innheimt fyrir ferðakostnað og ferðatíma.
Vettvangsúttektir eru framkvæmdar á fyrsta og öðru og svo á þriggja ára fresti eftir það. Árin á milli þarf að uppfæra umsóknarupplýsingar og greiða árgjald.
Vottunarferlið
Umsóknarferli
Umsækjandi smellir á græna hnappinn efst í hægra horni síðunnar eða hefur samband við okkur hjá Túni í gegnum tourism@tun.is
Tún sendir umsóknargögn til umsækjanda.
Umsækjandi sendir inn vel útfyllt umsóknargögn til Túns og greiðir umsóknargjald Green Key til Túns.
Úttektarferli
Matsmaður Túns fer yfir umsóknargögn út frá kröfum Green Key.
Matsmaður Túns og tengiliður umsækjanda ákveða tímasetningu úttektar.
Umsækjandi fær vettvangsúttekt frá matsmanni Túns.
Ákvörðun / Vottun
Umsóknin og matsskýrsla er lögð fyrir vottunarnefnd Green Key á Íslandi til ákvörðunar.
Ef umsókn er samþykkt fær umsækjandi vottorð og skjöld með merki Green Key (einnig er hægt að kaupa fána).
Framhaldið
Vottun Green Key gildir í 12 mánuði og verður að endurnýja árlega.
Árin í kjölfarið þegar gerð er vettvangsúttekt (annað ár og að jafnaði þriðja hvert ár eftir það): Fyrir lok vottunartímabils sendir umsækjandi uppfærðar upplýsingar á umsóknargögnum, greiðir þátttökugjald Green Key til Túns og fær vettvangsúttekt. Umsóknin og matsskýrslan eru borin undir vottunarnefnd Green Key á Íslandi til ákvörðunar um vottun.
Þau ár sem ekki er vettvangsúttekt: Fyrir lok vottunartímabils sendir umsækjandi uppfærðar upplýsingar á umsóknargögnum og greiðir þátttökugjald til Túns. Umsóknin er borin undir vottunarnefnd Green Key á Íslandi til ákvörðunar um vottun.