Breytingar á símakerfi Túns

Nýverið tók Tún upp nýtt símkerfi. Við breytingarnar féllu út beinar línur sem áður fóru til ákveðinna starfsmanna.

Símanúmer Túns er 511-1330 og tekur símsvari við sem gefur valkosti um vottunarsvið Túns.

Ef þið lendið í vandræðum bendum við ykkur á að senda okkur tölvupóst á viðkomandi vottunarsvið:

msc@tun.is vegna MSC og ASC vottunar,

organic@tun.is vegna lífrænnar vottunar,

tourism@tun.is vegna ferðaþjónustuvottana

eða tun@tun.is vegna annarra fyrirspurna.

Vottun sjálfbærra nytja lands og sjávar

Í tæp 30 ár hefur Tún sinnt úttektum og vottunum á sjálfbærum nytjum lands og sjávar. Stofnun Túns árið 1994 kom til af þörf fyrir þróunar- og vottunaraðila fyrir lífrænar afurðir á Íslandi. Árið 2008 hóf Tún að bjóða upp á úttektir og vottanir fyrir sjálfbæra fiskistofna og rekjanleika sjávarafurða til þeirra samkvæmt kröfum Marine Stewardship Council (MSC) og síðar einnig Aquaculture Stewardship Council (ASC). Á árunum 2019-2020 bætti Tún við sig þremur ferðaþjónustuvottunum: Vakanum, Green Key og Blue Flag og árið 2022 var gerður þjónustusamningur við EarthCheck.

Sjálfbærni er lykillinn að framtíðinni og eru vottanir á sviði sjálfbærni besta verkfærið fyrir rekstraraðila til að sanna fyrir viðskiptavinum og neytendum hvert þeirra framlag er til samfélagsins á því sviði.

Photo by Tim Mossholder on Unsplash

Hvað er vottun

Vottun er staðfesting þriðja aðila á því að umsækjandi uppfylli skilyrði sem sett eru fram í vottunarkerfinu. Kröfurnar byggja almennt á því að virkt umhverfis- og/eða gæðakerfi sé til staðar með öllum sínum verklagsreglum, ferlum og ábyrgðaraðilum. Vottun fæst því aðeins þegar kerfin eru komin í gagnið.

Úttekt þriðja aðilans þarf að uppfylla kröfur um óhlutdrægni, réttar aðferðir við sannprófanir og úrvinnslu úttektarinnar. Tún er faggild vottunarstofa gagnvart lífrænni vottun eftir stöðlum ISO 17065:2012 um störf vottunarstofa og fylgja önnur vottunarkerfi sömu stöðlum. Starfsmenn og verktakar Túns fylgja svo stöðlum ISO 19011:2018 um framkvæmd úttekta.

Vottunarstofum er óheimilt að veita ráðgjöf til dæmis um úrlausn frávika eða uppsetningu kerfanna svo þau standist úttekt. Það er svo vottunarstofur séu ekki að meta eigin vinnu. Okkur er þó heimilt að leiðbeina um hvernig skal túlka kröfur og svo framvegis.

Photo by Scott Graham on Unsplash

Nýir umsækjendur

Fyrsta spurningin sem áhugasamir aðilar um vottun þurfa að svara er afhverju þeir vilja fá vottun. Vottun getur þjónað ýmsum tilgangi og er aðgangur að tilteknum markaði sú algengasta. Vottunarmerki sem viðskiptavinir þekkja getur verið munurinn á því að þín vara eða þjónusta er valin fram yfir samkeppnisaðila. Þá er aðhald við stjórnendur á sviði umhverfis- og/eða gæðamála mörgum vottunarhöfum ómetanleg. Í flestum tilfellum felur vottun í sér að ferlar verða skýrari, ábyrgð skilgreindari og rekstur þar með hagkvæmari.

Þegar fyrstu spurningunni er svarað ætti að kynna sér kröfur viðkomandi vottunarkerfis og meta hvernig viðkomandi rekstur fellur að þeim. Beri mikið á milli getur verið gott að finna sér ráðgjafa með reynslu á sviðinu til að aðstoða við að koma rekstrinum nær kröfunum. Sé hins vegar lítið sem ber á milli getur verið gott á þessum tímapunkti að leita til okkar og fá verð í þjónustuna. Það getur þú gert með því að smella á græna hnappinn efst í hægra horni síðunnar. Starfsmenn okkar geta þá einnig tilgreint betur hvaða kröfur eiga við viðkomandi rekstur ef vafi leikur á því.

Allar kröfur okkar eru aðgengilegar annað hvort hér á heimasíðunni eða hjá eigendum viðkomandi kerfa.

Photo by Annie Spratt on Unsplash

Afhverju sjálfbærni?

Sjálfbærni þýðir í raun að viðkomandi eining viðhaldi sér sjálf en skaði ekki undirstöður sínar með óráðvendni, hvort sem það er einstaklingur, fyrirtæki eða samfélag. Í sinni einföldustu mynd þýðir sjálfbærni fyrirtækja að þau verði enn við góða rekstrarlega heilsu eftir einhver ár. Það þýðir að huga þarf að auðlindunum sem fyrirtækið reiðir sig á sem oftar en ekki koma frá náttúrunni, mannauðinum sem byggir upp fyrirtækið og telur það ekki einungis starfsmenn heldur einnig hagsmunaaðila og samfélagið og loks fjárhagnum enda telst fyrirtæki ekki sjálfbært fyrirtæki ef það fer í þrot.

Þrjár stoðir sjálfbærni fyrirtækja eru því Samfélag, Umhverfi og Efnahagur.

Vottunarkerfi sem Tún þjónustar gera öll kröfur um umhverfisstjórnun á einn eða annan hátt ásamt því að sum kalla eftir sannprófunum á samfélagslegri ábyrgð og ábyrgum rekstri. Þó vottunarkerfin beri öll mismunandi nöfn og þjóni ólíkum hópum stuðla þau öll að aukinni sjálfbærni hjá sínum vottunarhöfum.

Stóru markmið aukinnar sjálfbærni eru að snúa við þróun loftslagsbreytinga, misskiptingu lífsgæða í heiminum og sífellt dvínandi líffjölbreytileika jarðarinnar. Þó vandinn verði ekki leystur af einum einstakling eða fyrirtæki er það sú yfirlýsing sem við gefum með því að velja betri kostinn fyrir framtíðina sem hefur mest áhrif á okkar nærsamfélag.

Viljir þú koma á framfæri ábendingu eða kvörtun annað hvort um þjónustu á vegum Túns eða vörur eða þjónustu vottaða af Túni biðjum við þig að smella á hnappinn hér að ofan og fylla út formið ítarlega.

Sé erindið vegna vöru eða þjónustu sem merkt er sem lífræn og grunur er um að viðkomandi hafi ekki fengið vottun er bent á að tilkynna slíkt til MAST á mast@mast.is.

Allar tilkynningar eru meðhöndlaðar skv. persónuverndarstefnu Vottunarstofunnar Túns ehf. Reynist þörf á frekari upplýsingum áskilur Tún sér rétt til að kalla eftir þeim með svarpósti á netfang sendanda. Sé eðli tilkynningarinnar þess eðlis mun Tún upplýsa sendanda um málalyktir.